154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:28]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þrátt fyrir að ég ráði ekki og virki ekki nokkurn skapaðan hlut og sé ekki með fulltrúa í stjórn neins orkufyrirtækis þá er Landsvirkjun nú að bjóða út fyrir 100 milljarða á þessu ári. Orkuveita Reykjavíkur er búin að kynna fyrirætlanir sínar um fjárfestingaráætlun upp á 215 milljarða. Það eru stækkanir upp á nokkur hundruð megavött hjá HS Orku, Landsvirkjun. Þannig að það er nú ýmislegt sem er í gangi, kyrrstaðan er löngu rofin. Stærsta fjárfestingarátak í flutningskerfi er farið af stað hjá Landsneti upp á 88 milljarða á næstu fimm árum. Þetta voru 46 milljarðar árið þar á undan.

Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég skil ekki af hverju hv. þingmaður talar alltaf gegn betri vitund. Hv. þingmaður hefur fengið kynningu á skýrslu um upprunaábyrgðir. Hann er búinn að fá kynningu á henni. Hún liggur fyrir á netinu. Samt sem áður heldur hv. þingmaður alltaf uppi sama málflutningi sem beinist að því að reyna að blekkja fólk — blekkja fólk. Upprunaábyrgðakerfi, sem íslensk fyrirtæki hafa fengið gríðarlega miklar tekjur af, og munu geta fengið tekjur sem nema um 17 millj. kr. á ári og er tímabundið fyrirkomulag, er niðurgreiðsla okkar til að búa til græna orku.

Hv. þingmaður veit nákvæmlega að það eru ekki 13% af orkunni sem við notum hér sem er græn. Hann veit þetta, hann heldur áfram að snúa út úr og halda hlutum fram sem hann veit að eru rangir. Mér finnst það ekki sæmandi hv. þingmanni að ganga fram með þessum hætti. Ef hv. þingmaður vill að við göngum úr upprunaábyrgðakerfinu þá á hann bara að segja það. (EÁ: Ég vil það. Ég er búinn að segja það.) Það er þá bara skoðun. Það þýðir þá gríðarlega mikið tekjutap fyrir íslenskt þjóðfélag, gríðarlega mikið, og það eru tekjur sem við notum til að búa til græna orku.